Grein á DV um kynjahlutfall stjórnar Svars

May 31, 2023
https://svar.is/wp-content/uploads/2023/05/Stjorn-3-1280x854.png

Sérstæða Svars varð fréttaefni hjá DV í dag þegar grein birtist á vefnum um stjórn Svars, en hún er skipuð 5 konum og 1 karli, sem verður að teljast einstakt hjá tæknifyrirtæki á Íslandi. Greinin hljóðar svo:

Tæknifyrirtækið Svar, sem sérhæfir sig í samhæfðum rekstrarlausnum og hefur það að markmiði að gefa smáum sem stórum fyrirtækjum tækifæri til nútíma tæknilausna, er með framkvæmdastjórn skipaða sex einstaklingum. Af þeim eru fimm konur og eini karlmaðurinn er framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Rúnar Sigurðsson, sem jafnframt er einn af eigendum þess.

„Það var nú engin sérstöku ákvörðun tekin um að raða svona inn í framkvæmdastjórnina. Það helgast hreinlega af því að áhugi kvenna á tæknimálum er alltaf að aukast og svo margar frambærilegar konur eru innan þessa geira í dag. Við höfum einfaldlega verið mjög heppin að því leytinu til að margar þessara kvenna hafa áhuga á að vinna með okkur og þar sem við höfum þörf fyrir öflugt fagfólk hefur þetta verið raunin. Með þessu er ég alls ekki að segja að karlmenn séu einhverju minna frambærilegir en konur, hvorki í tæknigeiranum eða annars staðar, en þessar tilteknu konur hafa hentað betur í þau störf sem þær eru í hjá okkur í dag,“  segir Rúnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Svar.

Framkvæmdastjórn fyrirtækisins er skipuð Rúnari sjálfum, Kolbrúnu Víðisdóttur fjármálastjóra, Maggý Möller verkefna- og vörustjóra, Lindu Wessman sölustjóra, Erlu Kr. Bergmann hópstjóra hugbúnaðar- og tæknideildar og Önnu Lilju Sigurðardóttur hópstjóra bókhaldsdeildar.

Svar vinnur með fjölda lausna og leggur mikið úr því að þær lausnir séu aðlagaðar að nýjum tímum, en þróunin hefur verið sú síðustu ár að skýjalausnir hafa tekið við af innandyra  hýstum lausnum. Meðal lausna sem Svar vinnur með eru bókhaldsfyrirtækið Uniconta, verkskráningarferlið Intempus, Zoho CRM lausnir og nútímasímkerfið Teams.

„Það er okkar hlutverk að auðvelda viðskiptavinum okkar lífið og við erum alltaf á tánum, bæði þegar kemur að því þjónusta þá og eins til að leita að nýjum lausnum, til að bæta við flóru nútímans. Það þýðir ekkert að horfa til baka og festast í því sem virkaði einu sinni þegar kemur að tækni, því hún þróast svo hratt og hættir því aldrei. Við eigum því mikið inni og mikið eftir,“ segir Rúnar.

Greinina má lesa hér á síðu DV (birt 31. maí 2023)

Mynd: Elín Björg Guðmundsdóttir (https://elinbjorg.com)