Dagur í lífi skrifstofuhunds. Skuggi vs. Ryksugan

August 11, 2023
https://svar.is/wp-content/uploads/2023/08/upphafsmynd-e1691772441719.png
Ég undirritaður, Skuggi Rúnarsson, hreyfi andmælum við því að mér sé misboðið og ég sé ryksugaður! Mér þykir þetta móðgun við mig persónulega og mun harðneita í framtíðinni að vera settur í þessa stöðu fórnarlambs ofsafengins starfsfólks Svars, tilkippilegs til hverskonar áhættuatriða líkt og þessu, og það á vinnutíma!
En ég má til með að deila með ykkur stuttu myndbandi um þessar aðfarir að náttúrulegri fegurð minni. Fólkið mitt (starfsfólk Svars og mamma og pabbi) sögðu öll að ég væri íðifagur og skartaði mínu fegursta eftir þessa meðferð. Ef ég á að sletta á ensku þá er “Beauty is Pain” kunnuglegt stef sem margir þekkja, og ég held að þetta sé sannyrði. Ég skal viðurkenna að mér þótti spegilmynd mín feikna fögur þegar heim var komið og ég tók eftir því að kærastan mín, tík sem býr í hverfinu mínu, sýndi mér tilfinnanlega meiri áhuga þegar við hittumst í kvöldgöngunni okkar mömmu.
Ókey, ég skal viðurkenna að ég var kannski svolítið dramatískur í upphafi þessa pistils og að viðbrögð mín við ryksugunni voru mögulega dálítið ýkt, og að afraksturinn; viðkoma feldsins míns, var alveg dálítið ánægjulegur og ég varð bara skrambi flottur gaur eftir þetta. Ég er ennþá bara 3 ára og get brugðist við allskonar aðstæðum á þann hátt að sumum gætu þótt viðbrögð mín skrítin og óvenjuleg.
En góða helgi, gott fólk. Vonandi vekur þetta stutta myndband hjá ykkur smá föstudagsfiðring og verði vísir að góðri helgi og að þið njótið frísins. Ég ætla í það minnsta að gera mér glaðan dag á morgun þegar pabbi minn, Rúnar, á afmæli. Gerið mér greiða og kastið á hann kveðju hérna í athugasemdum. Það myndi gleðja mig óhemju mikið 🐶❤️🧔‍♂️
🦴🍕🍹🌅🎁🎈🎉🙏
Hér er myndbandið á Facebook, þar sem þið getið kastað kveðju á pabba í athugasemdum
Skuggi vs. Ryksugan
Og meðan ég man. Gleðilega hinseginhátíð! Það er pláss fyrir alla. 🏳️‍🌈 🏳️‍⚧️
Ykkar einlægur (og nýsnyrtur)
Skuggi Rúnarsson
❤️💚💛💙🧡💜