Nauðsynlegt að endurskoða lög um bókhald og færa þau til nútímans.

December 14, 2021
https://svar.is/wp-content/uploads/2021/03/Runar-Svar-1024x683-1.jpg

Nauðsynlegt að endurskoða lög um bókhald og færa þau til nútímans

Miklar breytingar eiga sér nú stað samfara stafrænu byltingunni eða fjórðu iðnbyltingunni sem hún kölluð er. Mörg störf koma til með að taka breytingum og handavinna bókarans einnig. Auðvelt er að sjá það fyrir að störf þar sem verið er að setja inn gögn aftur, sem þegar hafa verið slegin inn í stafrænt umhverfi munu hverfa á næstu árum. Þegar má sjá að fyrirtækin eru farin að huga að hagræðingu og breytingum samfara þessu. Hlutverk bókarans verður meira eftirlits og rekstrarlegs eðlis frekar en innsláttur á gögnum líkt og til þessa hefur verið.

Rafræn samskipti

Kosturinn við rafræn samskipti er mikill og má þar helst nefna að villur við innslátt eru nánast úr sögunni og ekki er þörf á að bíða eftir því að póstur berist með eldri hætti. Margir halda að svokölluð PDF skjöl séu rafræn samskipti en svo er ekki. Einu gildu rafrænu skjölin eru í gegnum skeytamiðlara á stöðluðu formi. Í dag er skeytamiðlun komin á samevrópskan staðal og mun það flýta verulega fyrir framþróun á rafrænum samskiptum. Kostnaður hefur líka lækkað mikið undanfarin ár og ættu flest fyrirtæki og einyrkjar að ráða við þann upphafskostnað. Í raun er hann þegar orðin minni en var áður með eldri hætti, þar sem þurfti að prenta út, setja í umslag og síðan senda með venjulegum pósti til viðtakenda.

Pappírslaust bókhald

Bókhaldið verður pappírslaust og engar möppur, græna byltingin í hnotskurn. Auðvelt verður að vinna við uppgjör og bókhald hvar sem er því öll gögn eru þegar til staðar í hinum stafræna heimi og hann á sér engin landamæri eða staðsetningar. Bókhaldið getur unnist alls staðar. Eru þetta ekki kærkomin þægindi fyrir þá sem kjósa að vinna heima eða nánast hvar sem er? En hvað með varðveislu á gögnum og lagalegri skyldu um að geyma gögn til sjö ára? Þær skyldur verða lagðar á herðar upplýsingakerfunum – að geyma þau eins og lög kveða á um. Í dag er lagaleg skylda að geyma frumgögn reikninga, en hvað er frumgagn reiknings ef aldrei hefur verið prentað út?

Nauðsyn er á endurskoðun bókhaldslaga

Mikil þörf er á endurskoðun bókhaldslaga um varðveislu gagna og umgjörð bókhalds og færa þau til nútímans. Veit ég að nú þegar er þessi vinna hafin og vonandi mun henni ljúka fljótt. Nútíma rekstur og hagræðing krefst þess að lögin fylgir eftir þróuninni sem á sér stað í dag.

Höfundur er framkvæmdastjóri Svars ehf.

Nauðsynlegt að endurskoða lög um bókhald og færa þau til nútímans – Vísir (visir.is)