Bjarki innleiddi EOS fyrir Svar

August 30, 2022
https://svar.is/wp-content/uploads/2022/08/IMG_20220825_121618873-1280x960.jpg

„Það var afar ánægjulegt að vinna með Rúnari og hans fólki í Svari við að innleiða aðferðafræði EOS við móta skýra stefna og byggja upp árangursdrifna og ábyrga fyrirtækjamenningu. Þau fundu strax að EOS er árangursrík leið til að ná enn betri árangri. Það var sömuleiðis mjög ánægjulegt að finna fyrir liðsheildinni hjá Svari og þeim áhuga og drifkrafti sem er innan Svars við að standa sig vel og ná settu marki,“ segir Bjarki Jóhannesson, eigandi og framkvæmdastjóri Bravo.

Samstarf Svars og Bravo hefur legið á fleiri sviðum. Svar heldur utan um bókhald Bravo, líkt og margra annarra fyrirtækja, og notast þar við hið lipra og létta Uniconta-bókhaldskerfi sem hefur vakið mikla athygli á undanförnum árum og auglýst hefur verið undir kjörorðinu; Ertu nokkuð fastur í fortíðinni?

Í BANDARÍSKA HÁSKÓLAFÓTBOLTANUM

Bjarki er 56 ára Skagamaður sem eftir stúdentspróf hélt til Bandaríkjanna í viðskiptafræðinám við Coastal University í Suður Karólínu og spilaði þar knattspyrnu með háskólaliði skólans. Það fór vel á því en Bjarki spilaði með unglingalandsliðum Íslendinga, U-16 og U-18, á sínum tíma. Hann er með mastersgráðu í markaðsfræðum frá Háskólanum í Óðinsvé í Danmörku; og hefur lokið námi í stjórnendamarkþjálfun frá HR.

Hann hefur mikla reynslu af fyrirtækjarekstri. Hann starfaði eftir nám hjá Eimskip, fór þá til Nýherja, stofnaði fyrirtækið Omnis sem var með 40 manns í vinnu og rann inn í Premis árið 2016. Sem aftur sameinaðist Opnum kerfum í byrjun þessa árs. Núna er Bjarki að hætta hjá Opnum kerfum til að helga sig Bravo og EOS.

ÉG ER EKKI RÁÐGJAFI

„Ég er ekki ráðgjafi,“ svarar Bjarki strax spurður um hlutverk sitt hjá þeim fyrirtækjum sem hafa nýtt þjónustu hans með EOS. „Ég er frekar að þjálfa, liðsinna, og leiða stjórnendur áfram í EOS aðferðafræðinni. Þetta er árangursmiðuð aðferðafræði sem eigendur fyrirtækja og stjórnendur nýta við að koma á breytingum innan fyrirtækja og hjálpar þeim að skerpa sýnina á rekstrinum; ná tökum á málum og finna út hvar styrkleikarnir liggja og einbeita sér að þeim. Ennfremur hjálpar EOS við að byggja upp sterka liðsheild starfsmanna, velja rétta fólkið út frá kúltúr fyrirtækjanna og að sannreyna að ábyrgð og hlutverk hvers og eins sé á hreinu.“

BANDARÍSKT REKSTRARKERFI

EOS er bandarískt fyrirtæki og stendur fyrir Entrepreneurial Operating System sem útleggst sem rekstrarkerfi frumkvöðla og stjórnenda. Það samanstendur af þremur hlutum; módelinu sjálfu, ferlinu við innleiðingu og verkfærakistunni, og hentar í öllum atvinnugreinum. Yfir hundrað þúsund fyrirtæki um allan heim hafa tekið það upp og eiga það sameiginlegt að hafa sýnt mikinn vöxt í kjölfarið.

„Ég kynntist EOS árið 2019 og varð strax hrifinn af því. Ég hafði samband við EOS Worldvide í Bandaríkjunum og fór í gegnum þeirra skóla til að nema tæknina til fulls. Nú, þegar hafa nokkur öflug fyrirtæki hér heima nýtt sér þessa aðferðafræði og eru ánægð með árangurinn,“ segir Bjarki. „Ég skil raunar ekki alveg við fyrirtækin þegar vélin er komin í gang því ég tek skipulagða fundardaga með stjórnendateyminu ársfjórðungslega til að fara yfir sýnina, árangurinn og forgangsverkefni komandi ársfjórðungs. Deildir fyrirtækisins taka síðan þá vinnu og setja sér markmið fyrir ársfjórðunginn og ákveða sín forgangsverkefni.

GOLFIÐ OG EOS

Um áhugamál sitt, segir Bjarki að því sé fljót svarað. „Ég er í golfinu. Ég bý á Akranesi og það er stutt á völlinn hjá mér. Það er eins með golfið og EOS-rekstarkerfið; það þarf að ná tökum á kylfunni til að koma golfkúlunni að settu marki.“