Einn glæsilegasti rafíþróttasalur Evrópu leitaði til Svars

September 19, 2022
https://svar.is/wp-content/uploads/2022/09/Daniel-Kari-i-Arena-Gaming-2.png

Þegar kemur að rafíþróttum þá skiptir netið öllu máli. Í hita leiksins má kerfið ekki hiksta og hægja á sér. Það var því verðugt verkefni fyrir Svar þegar einn glæsilegasti rafíþróttasalur Evrópu, Arena Gaming í Turninum í Kópavogi, leitaði til Svars um að setja upp eitthvert viðamesta netskipulag sem um getur hér á landi. Salurinn var opnaður í október í fyrra og er þjóðarleikvangur rafíþrótta á Íslandi. Arena merkir leikvangur og hann er svo sannarlega til staðar í Kópavoginum.

„Við erum með eitt umfangsmesta ljósleiðarakerfi hér á landi og með 120 tölvur nettengdar. Það var því ekkert annað í boði en að setja upp fullkomið netkerfi og þar kom Svar til sögunnar,“ segir Daníel Kári Stefánsson, framkvæmdastjóri Arena Gaming.

„Samstarfið við Svar hefur gengið afar vel. Svar sá um alla hönnun á netlagi, valdi netbeina, tölvuskápa og allan grunnbúnað fyrir netið. Sá jafnframt um allan frágang á lögnum og tengingum – og setti upp skjávarpa, tjöld og myndavélakerfi,“ segir Daníel Kári.

EINSTAKLINGAR OG HÓPAR FRÁ FYRIRTÆKJUM

Arena Gaming er fullkominn leikvangur rafíþróttamanna á 1.100 fermetra svæði á jarðhæð Turnsins í Smáranum. Hann er búinn fullkomnu stúdíói, einkasölum, VIP-sal og svo auðvitað hinum stóra spilasal – sem blasir við þegar inn er komið – þar sem kraftmiklar tölvur og iðandi skjáir sinna hlutverki sínu langt fram á kvöld. Ævintýraheimur!

Það eru ekki aðeins einstaklingar sem mæta í Turninn til að spila; mjög hefur færst í vöxt að hópar frá fyrirtækjum komi til að spila saman og nýti sér í leiðinni veitingar staðarins í mat og drykk. „Við erum með vínveitingaleyfi og hér eru tveir barir. Þá bjóðum við upp á ljúffengar pítsur, hamborgara og salat.“

Rafíþróttasamband Íslands er til húsa í Arena Gaming – sem og rafíþróttadeild Breiðabliks. Rafíþróttakeppnirnar á Stöð2 E-sport eru teknar upp í stúdíói Arena en rafíþróttir eru sú íþróttagrein sem vex hraðast í heiminum. Enda hefur velta tölvuleikjafyrirtækja margfaldast í takt við sívaxandi fjölda spilara í heiminum. Leikirnir eru margir en vinsælustu leikirnir eru sem fyrr Counter-Strike og Fortnite.

Daníel Kári í Arena Gaming Arena

ARENA TENGIR SAMAN TÖLVUR – EN LÍKA FÓLK

„Hér iðar allt af lífi. Fólk á öllum aldri kemur til okkar til að spila saman. Við getum því sagt að við tengjum ekki aðeins tölvur saman heldur sömuleiðis fólk – sem rífur sig upp úr sófanum til að spila og vera saman. Eða horfir hér á íþróttaleiki á stórum skjáum, eins og  Formúluna og knattspyrnuleiki. Foreldrar koma til dæmis með börnin sín hingað til að spila FIFA-leikinn sem nýtur mikilla vinsælda. Það voru t.d. 500 börn á námskeiðum hjá okkur í sumar og síðastliðið vor fór hér fram úrslitakvöld framhaldsskólanna í rafíþróttum. Þetta var magnað kvöld og Gettu betur-stemning af bestu gerð.“

Sem dæmi um vinsældir Arena Gaming kom býsna stór hópur af eldra fólki fyrir nokkrum vikum til að spila Mario Kart-leikinn fræga en hann er spilaður á Nintendo-tölvur. „Þetta kom okkur svolítið á óvart en við höfðum mjög gaman af þessu; brugðumst fljótt við og leystum málið.“

JÓGASALURINN MIKIÐ NOTAÐUR

Að sögn Daníels Kára hefur ímynd rafíþróttamanna breyst töluvert. Líkamlegar æfingar eru orðnar áberandi og keppendur huga meira að mataræði og slökun og hvíld eftir harða keppni. „Til að mæta þessum þörfum erum við með jógasal sem er mjög mikið notaður; hér teygja menn sig og liðka til að ná sem mestum árangri,“ segir Daníel Kári.