Ríkið tekur forystu í rafrænum lausnum.

February 5, 2019

Svar hefur lagt mikla áherslu á rafrænar lausnir og reynt að útrýma öllum óþarfa pappír. Það er mjög ánægjulegt að ríkið tekur nú forystu í þessum efnum og þann 15. febrúar síðastliðin var boðað til samráðsfundar með hagsmunaðilum.

Sjá nánar um verkefnið hér að neðan:

Nordic Smart Government

Nordic Smart Government er norrænt samstarfsverkefni fyrirtækjaskráa, skattyfirvalda, hagstofa og fleiri aðila á öllum Norðurlöndunum. Hvert þeirra hefur sitt landsteymi. Ríkisskattstjóri stýrir vinnu íslenska landsteymisins sem skipað er fulltrúum frá ríkisskattstjóra, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Hagstofu Íslands.

Verkefnið er upprunnið hjá dönsku fyrirtækjaskránni (Erhvervsstyrelsen/Danish Business Authority). Það hófst árið 2016 og hefur stöðug samvinna verið milli Norðurlandanna síðan.

Markmið

Verkefnið snýst um að skipta handvirkum ferlum út fyrir sjálfvirka sem eykur bæði gæði gagna og sparar tíma fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Þá er einnig markmiðið að gera viðskipta- og bókhaldsgögn aðgengileg fyrirtækjum og stofnunum á sjálfvirkan og öruggan hátt í rauntíma. Þessi sjálfvirkni eykur aðgengi að gögnum fyrir nýsköpun, þar sem þau verða tiltæk til að styðja við þróun nýrra vörutegunda.

Ávinningur

Með verkefninu er ætlunin að lágmarka stjórnsýsluálag á fyrirtæki, auka hagnýtingu gagna, forðast handvirka skráningu og uppskera hámarksvirði upplýsinga. Með þessari hagræðingu mun fjármagn sparast bæði á vegum hins opinbera og fyrirtækja í atvinnugreinum. Hér að neðan eru nefnd nokkur atriði sem snúa að ávinningi fyrirtækja, stjórnsýslunnar, og annarra samstarfsaðila;

 

Ávinningur lítilla og meðalstórra fyrirtækja

  • Dregur úr álagi vegna umsýslu og sparar tíma með sjálfvirku bókhaldi og skýrslugerð
  • Gagnsær markaður sem leiðir til aukins trausts viðskiptafélaga
  • Virkari samkeppni og árangursríkara norrænt markaðssamstarf – og því meiri verðmætasköpun á okkar svæði
  • Einfaldar viðskipti yfir landamæri með samræmdum stöðlum

 

Ávinningur stjórnsýslunnar

  • Betri gögn leiða til skilvirkari skýrslugerðar og stjórnsýslu. Þau nýtast bæði við stefnumótun og gera eftirlit sjálfvirkara
  • Meira gagnsæi
  • Samhæfing stafrænna sprotaverkefna
  • Ávinningur samstarfsaðila
  • Bætt aðgengi að áreiðanlegum gögnum styður við nýsköpun á sviði rafrænnar þjónustu

 

Ítarefni

Nánari upplýsingar um Nordic Smart Government má finna á heimasíðu verkefnisins www.nordicsmartgovernment.org.

Heimild: Ríkisskattstjóri (2019, 28. febrúar). Nordic Smart Government. Rsk.is. Sótt af: https://www.rsk.is/um-rsk/nordic-smart-government/