Nám:

BSc. í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.
MSc í verkefnastjórnun frá Háskóla Íslands.

Störf:

Tölvunarfræðingur hjá Fagkaupum.

Núverandi starf:

Verkefna- og vörustjóri hjá Svar Tækni ehf.

Fjölskylduhagir:

Einhleyp, á 17 ára gamlan son, Jóhann. Á ketti sem heita Ada (í höfuðið á Ödu Lovelace, fyrsta forritaranum í mannkynssögunni) og Mala (í höfuðið á Malala Yousafzai, mannréttindafrömuði)

Hver eru þín helstu áhugamál?

Að gera upp Mid-Century-Modern húsgögn og tek stundum í sundur gömul raftæki og lagfæri þau. Íbúðin mín er að mestu upprunaleg frá 1957 og ég hef sankað að mér retró húsgögnum og húsmunum frá því ég byrjaði að búa og hef gert við hluti frekar en að henda þeim og kaupa nýtt. Ég hef gert upp húsgögn í rúm 20 ár og stofnaði hópinn Tekk og vintage húsgögn/húsbúnaður til sölu/umræður á Facebook því mér fannst vanta samfélag áhugafólks um svona sixtís-húsgögn og húsbúnað. Í dag telur hópurinn um 23 þúsund manns og þar skrifa ég pistla um hvernig á að gera upp tekkhúsgögn. Svo sauma ég stundum alklæðnað fyrir teiti og er þekkt fyrir að „hamfletta“ gamla leðursófa og sauma leðurpils og handtöskur bæði fyrir sjálfa mig og aðra.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Ilmurinn eftir Patrick Süskind, en mér fannst ég vera stödd í Frakklandi á 18. öld og vera þátttakandi í söguþræðinum. Í fyrsta skipti las ég bókina í einum rykk. Gríp reglulega í hana til að láta hugann reika og endurstilla mig eftir erilsama vinnuviku.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Meistaraverkefnið mitt, rannsókn um áhættusækni íslenskra stjórnenda og verkefnastjóra. Var þá líka í 125 prósent vinnu, kenndi stærðfræði og tók sjálf boðaliðavaktir í Konukoti. Eftir á að hyggja finnst mér þetta nett bilað. Ég er þakklát fyrir gott bakland sem hvatti mig áfram og sá til þess að ég komst í gegn um þetta ósködduð.

Hvaða áskoranir eru fram undan?

Ég hóf nýlega störf hjá Svari þar sem ég stýri innleiðingu ýmissa lausna, líkt og ZOHO og TimeLog, ásamt því að stýra ýmsum verkefnum þvert á deildir. Stærsta hlutverkið verður ZOHO, sem er svíta af yfir 50 lausnum sem eru samþáttaðar svo þær vinna saman snurðulaust. Hægt er að samþátta þær við aðrar hugbúnaðarlausnir, líkt og bókhaldskerfið Uniconta. ZOHO býður upp á lausnir líkt og CRM viðskipta- og sölukerfi, SIGN með rafrænum undirskriftum sem standast íslensk lög og reglur og SALESIQ sem gerir viðskiptavinum okkar meðal annars kleift að fylgjast með hverjir heimsækja vef þeirra. Þetta eru bara þrjár af yfir 50 lausnum sem eru í boði og er það mitt hlutverk að tileinka mér þessar lausnir og verða ZOHO-sérfræðingur. Við sjáum fram á að ZOHO verði leiðandi á markaðnum innan fimm ára ef spár helstu sérfræðinga í bransanum rætast. Þetta eru spennandi tímar og ég er afskaplega heppin með samstarfsfólk og hafa þau gert þetta ferli ánægjulegt, svo ég er full þakklætis í garð þeirra.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár?

Verð orðin sérfræðingur í fjölmörgum lausnum Zoho og leiði útrás hugbúnaðarins í Skandinavíu. Eignast svo sumarbústað, annað hvort úti á landi eða sumarhús í Gerir upp gömul húsgögn og raftæki Maggý getur hugsað sér að skrifa skáldsögu í framtíðinni. MYNd/AÐSEND Suður-Evrópu. Ég hef unun af því að læra nýja hluti og útiloka ekki fleiri meistaragráður. Kannski skrifa ég skáldsögu, en kafli úr meistararannsókn minni birtist í bókinni Rannsóknir í viðskiptafræði III sem verður gefin út núna í ársbyrjun 2023. Það er ánægjulegt.

Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Læknir eða húsgagnasmiður.

Hver er uppáhaldsborgin þín?

Cardiff. Ég heimsótti Cardiff 2009 og varð ástfangin af borginni. Sagan, mannvirkin og fólkið. Ég gisti á BnB sem var queer-friendly, rekið af hjónum sem voru dragdrottningar á kvöldin og það kom nokkuð oft fyrir að það voru dragdrottningar í fullum skrúða við morgunverðarborðin. Ekki skemmdi að í Cardiff eru Dr. Who og Torchwood þættirnir teknir upp, en ég er mikill aðdáandi þessara tveggja sci-fi þáttaraða.